Í því gríðarlega magni upplýsinga sem berast okkur daglega í gegnum fjölmiðla og þá sérstaklega á internetinu þá er óhjákvæmilegt að þar séu upplýsingar og fréttir sem eru í besta falli þanig að sannleikanum og staðreyndunum er hnikað aðeins til eða þá að um hreinan uppspuna er að ræða þar sem snúið er út úr orðum einstaklinga, þeim gerðar upp skoðanir eða í versta falli hreinlega logið upp á þá til að sverta þá og draga æru þeirra niður í skítinn.
Það er því undir okkur sjálfum komið hvernig við vinnum úr þeim upplýsingum sem birtast okkur í fjölmiðlum, á netinu og í ljósvakamiðlum því það er misjafn sauður í mörgu fé og því miður er innan blaða og fréttamannastéttarinar fólk sem lætur staðreyndir og sannleika lönd og leið en skrifar og talar aðeins það sem launagreiðandinn borgar þeim fyrir og það er of mikið af þannig fólki á íslanskum fjölmiðlum, fólk sem virðir ekki siðareglur og lög Blaðamannafélags íslands og kemst því miður upp með það.
Upplýsingaóreiða og falskar fréttir:
Hugtakið upplýsingaóreiða (e. information disorder) hefur verið áberandi undanfarin ár og þá oft í samhengi við kosningar, alþjóðastjórnmál og stríð. Algengt er að sjá dæmi um upplýsingaóreiðu þegar hagsmunir eru miklir og mál umdeild. Hugtakinu er gjarnan skipt í þrennt:
- Misupplýsingar (e. misinformation): Röngum eða misvísandi upplýsingum er deilt án ásetnings og ekki til að valda skaða.
- Rangupplýsingar (e. disinformation): Röngum eða misvísandi upplýsingum er deilt af ásetningi og til þess að valda skaða.
- Meinupplýsingar (e. malinformation): Réttum upplýsingum er deilt af ásetningi og til þess að valda skaða.[1]