Skoðað í 1452 skipti
Viðskiptablaðið, sem sérhæfir sig í umfjöllun um viðskiptalíf og fjármál, skýlir sér á bak við frambjóðanda í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Arnalds, og birtir gagnrýnislaust dómsdagsspá hans um að Reykjavíkurborg gæti lent í gjörgæslu vegna reksturs síns.
Eyþór hefur reiknað út þróun heildarskuldbindinga borgarsjóðs undanfarin ár og finnst þær ekki koma vel út. Þarna eru inni stór uppgjör vegna lífeyrisskuldbindinga en hann þykist ekkert vita um það, notar þá aðferð að spyrja bara spurninga til að varpa upp efa.
Þarna gæti Viðskiptablaðið hæglega leitað sjálft skýringa en kýs að gera það ekki. Ekki eru heldur aðrar mikilvægar tölur skoðaðar á borð við skuldahlutfall, en það er ennþá langt frá því sem þarf til þess að borgin lendi í þeirri stöðu sem Eyþór varar við.
Með því að einblína bara á eina tölu og þróun hennar yfir valið tímabil má að sjálfsögðu fá þá niðurstöðu sem manni hentar og einfalda veruleikann. Maður velur töluna og tímabilið sjálfur, skilgreinir forsendurnar, og spáir ekkert í það sem rímar ekki við þann veruleika sem maður er að hanna. Viðskiptablaðið er meðsekt í þessu með því að birta málflutning Eyþórs alveg án gagnrýni.
Fyrir utan tæknilega umræðu um muninn á lífeyrisskuldbindingum og lánum þá kýs Eyþór/Viðskiptablaðið síðan að smyrja lífeyrisskuldbindingunum, sem koma inn í á einu bretti, yfir allt tímabilið og láta eins og skuldir séu að aukast stöðugt um milljarð á mánuði. Ljúga með meðaltalinu.
Núverandi veruleiki rímar hins vegar illa við þessa svörtu mynd, en árið byrjaði á því að ákveðið var í ljósi góðrar stöðu á handbæru fé að ekki yrði farið í neinar lántökur á fyrri hluta ársins hjá borginni.
Skoðað í 1452 skipti